Leiðin heim

Theodóra er heillandi lítil brúða hönnuð af Héléne Magnússon. Theodóra fær ný föt reglulega og á líka vini og fjölskyldu. Hún vaknar til lífsins í smásögum eftir rithöfundinn Hörpu Jónsdóttur. Héléne og Harpa vinna alveg sjálfstætt þannig að enginn veit hvað gerist næst! Dúkkurnar og sögurnar, “Ævýntiri Theodóru“, eru orðnar til fyrir áhrif frá þulu Theodóru Thoroddsen “Tíu litlar ljúflingsmeyjar“.

Níu litlar ljúflingsmeyjar um leiðina tóku að þrátta.
Ein þeirra datt í lækinn, þá voru eftir átta.

Í  öðrum kafla Ævintýra Theodóru, Leiðinni heim, komumst við að því hvernig Theodóra og Olivia kynnast og því hvað hann Smali er afskaplega góður hundur! En hver datt í lækinn? Lesið söguna og komist að því!

Til baka í Tölublað 04 – Vetur 2011

pdf

Olivia/Theodóra Uppskrift*

5 €

kit

Brúða Kit (garn en ekki uppskrift)*

27 € (sendingarkostnaður innifallin)

Name/Nom/Nafn:

*sjá upplýsingar og tækni

Leiðin heim

Ævýntiri Theodóru
Annar kafli: "Leiðin heim"

,,Hæ!” Olivia hallar sér yfir steyptan garðvegginn og horfir forvitin á Theodóru, sem situr og klappar glaðlegum hundi með sperrt eyru og hringað skott.

Theodóra lítur upp og brosir. ,,Hi! Where are you from?”
,,Reykjavík. Af hverju talarðu ensku?”
Theodóra snöggroðnar. „Ég hélt þú værir útlendingur, af því að, hérna, sko...” Hún þagnar og grúfir sig yfir hundinn.
„Af því að ég er ekki eins og vanilluskyr á litinn meinarðu?” Olivia skellihlær og hoppar yfir vegginn.
Theodóra kinkar kolli og beygjir sig yfir hundinn.
„Iss, þetta er allt í lagi. Fólk heldur oft að ég sé útlendingur. En það eru yfirleitt gamlingjar, en ekki krakkar á mínum aldri.”

„Fyrirgefðu. Ég heiti Theodóra, hvað heitir þú?”

„Olivia. Ég flutti inn hérna við hliðina á þér í gær. Og áður en þú spyrð, þá er mamma mín líka Íslendingur, þó hún hafi reyndar verið ættleidd hingað.”

„Frábært, velkomin! Heyrðu, ég er að fara í berjamó, viltu kannski koma með?” Theodóra réttir úr sér, fegin að geta skipt um umræðuefni.
„Já, endilega!”
„Æði! Bróðir minn skutlar okkur inn í dal og sækir okkur svo seinnipartinn.”
„Hvaða dal?” Olivia horfir yfir fjörðinn þar sem djúpir dalir kljúfa snarbrött fjöllin.
„Eyðidalinn minn. Sem fjölskylda mín á. Þar er besta berjalandið og stærstu berin.”

„Fer enginn fullorðinn með okkur?”

„Nehei. Fullorðið fólk er alltaf með vesen í berjaferðum. Það hrópar um leið og maður sést ekki, þó maður sé bara ofan í laut og það getur aldrei klárað úr brekkunum. Það heldur alltaf að berin séu betri annarsstaðar. Mér finnst best að fara ein.”

„En ertu ekkert hrædd við að fara ein svona langt?”
„Ein? Ég verð ekki ein. Þú kemur með mér og svo hef ég Smala. Hundinn sko,” bætir hún við til skýringar.

„Glæný stígvél, trefill, húfa og kápa. Ég get varla hreyft mig, en mér verður allavega ekki kalt!” Olivia gengur eins og spýtukall um stéttina og Theodóra hermir eftir.

„Sama hér. Ég má ekki fara, nema ég kappklæði mig. En bláa kápan þín er svo falleg, eiginlega allt of fín fyrir berjaferð!”

Dalurinn breiðir út faðminn í haustsólinni. Grasi gróinn fremst, en aðeins innar taka lyng og kjarr við. Þær ganga upp með ánni, spjalla og hlæja og njóta þess að kynnast ótruflaðar. Þeim hitnar á göngunni en sem betur fer má troða húfum, vettlingum og treflum í poka.

„Erum við ekki bráðum komnar, það eru ber út um allt?” Olivia lítur í kring um sig á heiðbláar og kolsvartar berjaþúfur.
„Jú, bráðum. Við förum yfir ána og aðeins upp í hlíðina. Þar eru bestu lautirnar og stærstu aðalbláberin.”

Brekkan er mun brattari en hún lítur út fyrir og Olivia er orðin svolítið móð þegar Theodóra hrópar upp yfir sig: „Við erum komnar.” Hún hendir sér niður og byrjar strax að tína en Olivia starir á berjalyngið. Hún hefur aldrei séð svona mikið af berjum á einum stað.

Þær tína fyrst upp í sig þar til þær eru bláar um munn og hendur. Smali hleypur í kring um þær, eltir fiðrildi og geltir að kindum í fjarska.

Þær keppast við, Theodóra tínir hraðar og er fljótari að fylla fyrsta boxið, en Olivia er ekki mikið seinni og dregur hratt á hana. Þær eru búnar að fylla tvö stór box hvor þegar þær taka upp nestið.

„Veistu, ég held að það séu ennþá fleiri ber þarna aðeins innar og ofar.” Theodóra pírir augun og horfir upp með fjallinu.

„Geta verið fleiri ber en hér? En það hægt?” Olivia gæti vel hugsað sér að sjá það. Þær klára nestið og sammælast um að fara aðeins lengra. Þær stoppa og tína af og til, en það er alveg sama hvað þær fara langt, það eru alltaf ennþá fleiri ber í næstu laut og á þarnæstu þúfu. Kvöldþoka sígur niður hlíðarnar en þær líta ekki upp. Berjaboxin eru orðin full, en það má tína í nestisboxin og vatnsflöskurnar

En allt þrýtur um síðir og þær fylla síðustu ílátin nánast samtímis.

„Vá, hvað það verður gaman að koma heim með þetta allt!”

„Jahá, það verður veisla í kvöld. Bláber með rjóma. Mmmmm!”

Smali geltir og er órólegur.

„Hvað er að karlinn, ertu svangur?” Theodóra klappar hundinum, en lítur svo í kring um sig og þagnar.

„Við skulum fara að koma okkur heim Olivia. Þokan.”

Hún þarf ekki að segja meira. Olivia finnur rakann í loftinu og henni snöggkólnar. Nú er gott að hafa hlýju fötin og þær klæða sig hratt.

 

 

 

Þegar þær nálgast dalbotninn sér Theodóra að þær eru komnar mjög langt inn í dalinn.

„Hvar er þetta andskotans vað?”

„Hvað meinarðu?”

„Ekkert! Komdu!” hvæsir Theodóra og leggur af stað niður með ánni.  Þær ganga drjúgan spöl en finna hvergi góðan stað til að fara yfir. Áin virðist miklu dýpri og straumharðari en fyrr um daginn.

„Hérna, Theodóra? Ertu viss um að við séu ekki komnar framhjá vaðinu?”

„Viss? Hvað meinarðu?” Theodóra ætlar að fara að æsa sig en hættir við.

„Nei, ég er ekki viss. En hér eru nokkrir steinar í ánni. Eigum við kannski að reyna?”

Theodóra tekur langt tilhlaup, nær að fyrsta steininum, yfir á þann næsta, en rennur aðeins út af þeim þriðja áður en hún kemst upp á bakkann.

„Komdu! hrópar hún. „Þetta er ekkert erfitt”

Olivia gerir eins og Theodóra en sleip stígvélin ná engri fótfestu á steininum og  hún skellur aftur fyrir sig í ískalda ána. Theodóra hendist út í og hjálpar henni á fætur. Smali geltir eins og óður og æðir í hringi á bakkanum.

Theodóra sest á stein, treður hendinni ofan í rennblautan pokka og fiskar upp lítinn síma.

„Hann er dauður! Hann hefur ekki þolað smá bleytu! Hún hristir símann hneyksluð.

„Heldurðu að bróðir þinn komi samt ekki að sækja okkur? Hann hlýtur að muna eftir því þó þú hringir ekki.”

„Nei. Hann man aldrei neitt nema fótboltaæfingar. En mamma og pabbi fara örugglega að leita að mér. Það er bara spurning hvenær.”

Olivia er ekki vön að gráta og alls ekki fyrir framan þá sem hún þekkir eins lítið og Theodóru. En nú renna tárin niður kinnarnar. Hún sneri annan öklann í fallinu og á erfitt með að stíga í fótinn. Henni líst ekkert á að ganga niður á þjóðveg, draghölt í blautum fötum. Smali snuddar utan í henni eins og til að hugga hana, en hann getur ekki borið hana heim. Theodóra  stynur. Það er hvergi mann að sjá og hún sér ekki hvernig hún á að koma Oliviu mikið lengra

Allt í einu geltir Smali hátt og hleypur niður dalinn. Hann hverfur bak við lítinn hól og þær stara furðu lostnar á eftir honum.

„Smali, komdu karlinn, Smali” hrópar Theodóra. „Smali, Smali” tekur Olivia undir.

Þær tvístíga á sama blettinum. Ættu þær að vera kyrrar, reyna að fara á eftir hundinum, eða leggja af stað niður á veg?

Theodóra vill ekki skilja Smala eftir, en að lokum ákveða þær að reyna að ganga í átt að aðalveginum.

Þeim miðar hægt. Stígvélin eru þung, en lopaflíkurnar halda sem betur fer vel hita þrátt fyrir bleytuna. Olivia á erfitt um gang, verkurinn í öklanum eykst stöðugt.

Þær eru ekki komnar langt þegar þær sá jeppa skrölta inn dalinn. Theodóra hleypur á móti bílnum og veifar öllum öngum.

En hver er þetta sem situr í framsætinu með hausinn út um gluggann? Getur það verið Smali?

„Nei, komdu sæl Theodóra! Hann vinur ykkar vildi endilega að ég kæmi með sér.” Sigurður, afabróðir Theodóru, stígur út úr jeppanum. „Ég var í bústaðnum mínum hérna fyrir neðan veg og var á leiðinni á sjóstöng þegar þessi hvutti kom æðandi. Ég var nánast kominn upp í bátinn þegar hann kom gjammandi, en hann lét sig ekki fyrr en ég elti.”

„Skilurðu hunda?” Olivia er furðu lostin.

„Onei. En ég var bóndi í yfir fjörtíu ár og átti alltaf smalahunda svo ég kannast við látbragðið. Hann var greinilega að reyna að segja mér eitthvað og ég veit af langri reynslu að fullorðnir hundar reyna ekki að sækja fólk nema þegar ástæða er til. Þið eruð ósköp blautar greyin, ég skal skutla ykkur inn í bæ.”

Morguninn eftir hoppar Olivia á hækjum yfir í garðinn til Theodóru, með væna lambakjötsbita handa Smala.

***

Prjónakerling@Harpa Jónsdóttir 2011

Saga þessa má ekki afrita með neinum hætti, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfunda og útgefanda.

***

Harpa Jónsdóttir er rithöfundur. Hún fæst líka við að prjóna: Hún filtar og skreytir prjónaflíkurnar sínar með ótrúlega fallegum útsaumi. Þessi tvö áhugamál, við fyrstu sýn ótengd, bæta hvort annað upp í lífi Hörpu. Til þess að vita meira um hana getið þið lesið viðtal við Hörpu, "Þegar prjónaskapur og skriftir tvinnast saman".

Bloggið hennar: harpaj.net

Upplýsingar og tækni

Uppskriftin

Uppskriftin fyrir Oliviu (innifalið prjónaklukka og nærföt) er sú sama og fyrir Theodóru. Aðeins litirnir eru aðrir. Hin fötin og fylgihlutirnir eru aðskildar uppskriftir: Fylgist með því hvaða fatnaður er fáanlegur!

Stærð: hæð 37 cm

Prjónfesta: 10×10 cm  = 19 L x 26 umf í sléttu prjóni á 3,5 mm prjón með Létt-lopa; 26 L x 42 umf í sléttu prjóni á 3 mm prjón með Einband-Loðband.

Garn og efni: Léttlopi frá Ístex: litur 1418, 35 g (líkami); litur 1411, 10 g (hár), litur 0059. Einband-Loðband frá Ístex: litir 9281 og 9171 30 cm/ 12″ (augu og munur); litur 0851, 20 g (klukka); litur 0885: 4 m (klukka); litur 0059; 40 g til 50 g kembu eða pólýester tróð, trétappi 1 cm í þvermál (dúkka).

Prjónar og áhöld: hringprjónar í stærðum 3 mm og 3,5 mm (dúkka); heklunál 3 mm; prjónamerki, hjálparnælur, afgangsgarn, öryggisnælur, saumnál, skæri, málband.

Aðferð: prjónað í hring, tímabundið fit, hringfit, myndprjón.

Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.

Kit: Pakkinn inniheldur garn og efni en ekki prjóna eða önnur áhöld. Sendingarkostnaður er innifalinn í verði. Uppskriftin fylgir með prjónapakkanum sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.

Villur: engan villa fannst.

Um hönnuðinn

Hélène Magnússon finnst gaman að bregða á leik með íslenskar prjónahefðir. Hún er einna þekktust fyrir rannsóknir sínar á íslensku rósaleppaprjóni og gaf í því samhengi út bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem nú er fáanleg á þremur tungumálum. Hélène er frönsk að uppruna en á íslenska fjölskyldu og er sönn íslensk prjónakona. Hún sneri baki við frama sem lögmaður í París til þess að geta eytt meiri tíma í íslenskri náttúru og vann árum saman sem fjallaleiðsögumaður meðfram því að læra textíl- og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjöllmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum prjónatímaritum svo og bókum.