Króna

Hvers virði er ein íslensk króna?

Þessi uppskrift eftir Hélène Magnússon á rætur sínar í íslenska efnahagshruninu og með því er spurningunni um virði handverks velt upp. Uppskriftin er til sölu, en ÞIÐ ákveðið verðið. Smellið á takkann hér að neðan og sláið inn upphæðina sem þið eru tilbúin að borga. pund. Hvers virði er króna?

Til baka í Tölublað 02 – Vetur 2010

pdf

Króna Uppskrift*

Þú ákveður verðið í €

*sjá upplýsingar og tækni

Sagan á bak við uppskriftina

Hélène segir okkur meira um hvernig krónan varð til

“Haustið 2008 fóru bankarnir á hausinn. Íslenska krónan tók djúpa dýfu. Þá datt mér í hug að prjóna krónu og setja með því spurningamerki við raunverulegt virði hlutanna.

Ég ákvað að nota sléttar og brugðnar lykkjur til að vinna með sjálfan fiskinn og sýna smáatriðin í krónunni. Það tók dálítinn tíma að finna rétta garnið. Ég gat ekki notað íslenska ull því hún er of loðin, en að lokum fann ég fíngerða merionull sem sýndi vel muninn á sléttu og brugðnu lykkjunum í munstrinu. Ég gerði prufu og mældi prjónfestuna og bjó til grind í Photoshop sem passaði við hana. Því næst tók ég mynd af krónu og færði hana yfir á grindina í tölvunni með “layer transparancy” tækninni sem Photoshop býður upp á. Fyrst ætlaði ég að teikna krónuna inn á í lit en fannst auðveldara að teikna fiskinn upp sem negatívu. Auðvitað var nauðsynlegt að einfalda formið mikið því það er búið til úr litlum ferningum og stundum þurfti ég að velja og hafna. Loks þurfti ég að koma fisknum á pósitíft form, aftur með því að nota “layers”.

"Það tekur oft tíma að finna einföldu lausnirnar"

Það að teikna hring reyndist miklu erfiðara en ég bjóst við og tók dálítinn tíma. Ég varð að hafa í huga að til þess að kanturinn á hringnum liti vel út, þurftu aukningar og úrtökur að koma í annarri hverri umferð. Þá gat ég loksins prentað út munstrið og fitjað upp fyrir fyrstu krónuna. Það var ekkert sérstaklega auðvelt að fylgja munstrinu, sérstaklega á röngunni. Þetta er dæmigert munstur sem væri miklu hentugra að prjóna í hring eða með því að snúa stykkinu aldrei á rönguna, heldur prjóna til baka frá vinstri til hægri. Ég er ekki alveg nógu flink í þeirri aðferð þannig að ég ákvað að skyggja aðra hverja umferð til að greina á milli umferða á réttu og umferða á röngu. Þannig varð auðveldara að fylgja munstrinu. Þegar ég var byrjuð að prjóna gerði ég mér grein fyrir að aukningarnar og úrtökurnar þurfti að gera án þess að þær sæust mikið innan við kantinn. Ég prjónaði nokkrar prufur áður en ég fann leið – reyndar frekar einfalda – sem ég var ánægð með. Það tekur oft tíma að finna einföldu lausnirnar.

Það tók líka sinn tíma að strekkja krónuna, því til þess að gera krónuna að fullkomnum hring, þurfti ég að setja títiprjón í hverja einustu lykkju í kantinum.

Myndatakan var ennþá eftir, og að skrifa texta til birtingar á vefsíðunni minni. Í kjölfari var krónan tekin í sölu í Þjóðminjasafni Íslands. Ég ákvað að prjóna aðeins 5 stykki, númeruð 1-5, í sitt hvorum litnum. Ég fann líka leið til að hengja þær upp á vegg.

Meira en tveimur árum seinna ákvað ég að nú væri rétti tíminn til að gefa út uppskriftina og bjóða til sölu. En þá er komið að spurningu minni til þín: hvers virði er króna?”

Um hönnuðinn

Hélène Magnússon finnst gaman að bregða á leik með íslenskar prjónahefðir. Hún er einna þekktust fyrir rannsóknir sínar á íslensku rósaleppaprjóni og gaf í því samhengi út bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem nú er fáanleg á þremur tungumálum. Hélène er frönsk að uppruna en á íslenska fjölskyldu og er sönn íslensk prjónakona. Hún sneri baki við frama sem lögmaður í París til þess að geta eytt meiri tíma í íslenskri náttúru og vann árum saman sem fjallaleiðsögumaður meðfram því að læra textíl- og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjöllmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum prjónatímaritum svo og bókum.


Upplýsingar og tækni

Uppskriftin

Prjónfesta: 10×10cm = 29 lykkjur og 37 umferðir á 3 mm prjóna

Garn: Lana Grossa Cool Wool 2000, super fine merino wool, 50g/hnota, 50g = ca.160m/ litur 533, 1 hnota

Prjónar: 3 mm (US 11), heklunál 2.5 mm (US C)

Ahöld: plexigler (gegnsætt stíft plast) um 1mm á þykkt, nægilega stórt til að teikna hring, 25cm í þvermál. Skæri, nál og tvinni, upphengi til að líma aftan á.

Aðferð: sl og br.

Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.

Villur: engan villa fannst.