Út úr gerðinu

Theodóra er heillandi lítil brúða hönnuð af Héléne Magnússon. Theodóra fær ný föt reglulega og á líka vini og fjölskyldu. Hún vaknar til lífsins í smásögum eftir rithöfundinn Hörpu Jónsdóttur. Héléne og Harpa vinna alveg sjálfstætt þannig að enginn veit hvað gerist næst! Dúkkurnar og sögurnar, “Ævýntiri Theodóru“, eru orðnar til fyrir áhrif frá þulu Theodóru Thoroddsen “Tíu litlar ljúflingsmeyjar“. Í fyrstu línunum segir:

“Tíu litlar ljúflingsmeyjar laumuðust út úr stíu.
Amma náði i eina þeirra og eftir voru níu.”

Í  “Út úr gerðinu” hittum við Henriettu, vinkonu Theodóru og skemmtilega litla rauðhærða brúðu. Vinkonurnar hennar fara ekki beinlínis út úr stíu – en næstum því samt. Og amma lokkar aðra þeirra til sín, þó óviljandi sé – en til að vita meira verður þú að lesa söguna!

Til baka í Tölublað 03 – Vor 2011

pdf

Theodóra/Henríetta Uppskrift*

5 €

kit

Brúða Kit (garn en ekki uppskrift)*

27 € (sendingarkostnaður innifallin)

Name/Nom/Nafn:

*sjá upplýsingar og tækni

Út úr gerðinu

Ævýntiri Theodóru
Fyrsti kafli: "Út úr gerðinu"

„Tada”! Henríetta sneri sér í hring svo pilsið bylgjaðist eins og iðjagrænt engi í sumargolu.

„Vá hvað kjóllinn er flottur – ég verð bara græn af öfund, haha, græn, eins og kjóllinn! Má ég máta hann?”

„Já auðvitað, ef ég má máta hvítu peysuna þína. En fyrst þurfum við að gera svolítið!”

„Hvað?” Theodóra varð tortryggin. Þetta var fyrsti morguninn í sveitinni hjá Henríettu og þær voru þegar búnar að klappa bolanum, elta hænurnar, leika við kettlinga, klifra upp á hlöðumæninn og detta í fjóshauginn – sem kallaði á sturtu og fataskipti. Theodóra hafði eiginlega fengið nóg af ævintýrum, svona fyrir hádegi allavega.

„Leyndó! Komdu – og lokaðu augunum!” sagði Henríetta skipandi og dró Theódóru á fætur.

„Er þetta nóg?” Theódóra dró húfuna yfir augun og tók í útrétta hönd Henríettu sem teymdi hana yfir túnið.

„Bíddu hér og ekki kíkja!”

Theodóra heyrði vinkonu sína taka á sprett. Kolur gelti að þjóðveginum í öruggu skjóli heimreiðarinnar og heiðlóur sungu í sólinni.

Hún fann eitthvað nálgast, en náði ekki að átta sig áður en hún heyrði hátíðlega rödd Henríettu: „Má ég kynna, Theodóra, þetta er Blesi, Blesi, þetta er Theodóra, vinkona mín. Hún er svolítið hrædd við hesta, en hún þarf ekki að vera hrædd við þig, því þú ert svo gamall og góður.”

Hesta. Henríetta var komin með hest. Theodóra fann hvernig hún kaldsvitnaði og snöggreiddist um leið. Henríetta vissi alveg hvað hún var hrædd við þessar stóru skepnur!

„Þú mátt opna augun núna.” Henríetta talaði lágt, með sama blíðlega syngjandanum og hún notaði til að róa naut og lokka kettlinga undan heysátum.

Heldur hún að ég sé einhver hvumpin belja? hugsaði Theódóra um leið og hún dró húfuna hægt frá andlitinu og opnaði augun. Henríetta brosti fallega og hélt í tauminn á rauðum hesti með hvíta blesu.

„Nei.” Theódóra krosslagði hendurnar á brjóstinu.

„Bara einn lítinn hring í gerðinu? Fyrir mig?” Henríetta færði sig örlítið nær og horfði á Theodóru með biðjandi hvolpsaugunum sínum.

„Allt í lagi.” heyrði Theodóra sjálfa sig segja. Allt í lagi? Ætlaði hún á bak? Á alvöru lifandi hesti? Hún hafði ekki hugmynd um hvers vegna hún samþykkti það. En það var eitthvað í rödd Henríettu og augnaráði sem lokkaði jafnt fólk og skepnur til að gera ólíklegustu hluti.

Henríetta teymdi Blesa inn í gerðið og lokaði hliðinu vandlega. Svo hjálpaði hún vinkonu sinni á bak. Það var miklu minna mál að komast upp en Theodóra hélt, hún var sterk í fótunum eftir ballettæfingar vetrarins og Blesi stóð grafkyrr.

„Svona. Klemmdu svo bara vel með fótunum og haltu í tauminn.”

„Og hvað svo?”

„Ekkert.Ég teymi svo þú þarft ekki að gera annað en njóta ferðarinnar.”

Henríetta rölti af stað og Blesi fór fetið við hliðina á henni, sallarólegur. Þetta var ekki svo slæmt, svolítið eins og að sitja í mjúkum ruggustól og vagga sér aðeins. Þau fóru fyrstu tvo hringina löturhægt og þann þriðja örlítið hraðar. Þetta var næstum því gaman, varð Theodóra að viðurkenna fyrir sjálfri sér, þó hún væri ekki tilbúin að játa það fyrir Henríettu ennþá.

„Amma er að koma, amma, amma!”  Theodóra hrökk við og Blesi lyfti höfðinu hissa. Henrietta klifraði í snarhasti yfir gerðishliðið og hlóp í áttina að heimreiðinni þar sem glansandi hárauður jeppi spændi upp möl og ryki.

Ónei. Í látunum hafði Henríetta rekið sig í hespuna og hliðið opnaðist hægt en örugglega.

„Nei. Nei nei. Ekki. Nei Blesi!” En Blesi hélt greinilega að hann ætti ennþá að fylgja Henríettu svo hann fetaði út um hliðið og í áttina að heimreiðinni.

Theodóra vissi ekki alveg hvernig hún ætti að stöðva Blesa og í óðagotinu rak hún annan hælinn þéttingsfast í hægri síðuna. Blesi var ekki seinn að taka við sér, hann reisti makkann og var kominn á harðastökk á augabragði.

Ég vissi ekki að hestar gæti aukið hraðann svona hratt, hann er bara eins og kappakstursbíll, náði Theodóra að hugsa,  áður en skelfingin læstist um hana. Nú dey ég. Ég dett af  baki, hálsbrotna og dey. Ég skal sko ganga aftur og hefna mín á Henríettu!

Theodóra æpti og kippti um leið í tauminn og þá gerðist kraftaverkið. Blesi hætti að stökkva og þaut í staðinn áfram eins og hann svifi lárétt meðfram jörðinni. Theodóra hossaðist ekki lengur í hnakknum og hún steinhætti að vera hrædd. Þetta var frábært. Hún flaug, þaut áfram á rauðu fljúgandi teppi og hún var alveg örugg. Hún var ósigrandi, hún gæti aldrei orðið hrædd aftur.

Svo var spretturinn allt í einu búinn. Blesi nam staðar við bæjarhlaðið eins og ekkert væri, svolítið móður eftir sprettinn. Theodóra lét sig síga af baki og Henríetta og amma henna flýttu sér til hennar.

„Ég hérna, gleymdi að segja þér að Blesi var kappreiðahestur þegar hann var yngri. Suðurlandsmeistari í skeiði og Íslandsmeistari líka. Afi hleypti honum alltaf meðfram heimreiðinni á meðan hann lifði…” Henríetta fiktaði í tölunum á peysunni og horfði skömmustuleg á  Theodóru og ömmu sína til skiptis.

„Skeiði?”

„ Já, þú lagðir hann Blesa á skeið, vissir þú það ekki?

Theodóra svaraði engu. Skeiðhleypaleggja – hún þekkti ekki þessi orð.

„Það var ótrúlegt að sjá þig  á skeiði aftur, ég hélt þú værir orðinn of gamall í þetta vinur.” Amma Henríettu strauk yfir mjúka snoppuna hálfklökk.

„Hérna, fyrirgefðu að ég gleymdi mér. Ertu nokkuð mjög reið?”

Theodóra hikaði aðeins en brosti svo út að eyrum og rétti Henríettu tauminn. Og það var nóg.

Því stundum þurfa bestu vinkonur engin orð, þær skilja hvor aðra samt.

***

Prjónakerling@Harpa Jónsdóttir 2011

Saga þessa má ekki afrita með neinum hætti, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfunda og útgefanda.

***

Harpa Jónsdóttir er rithöfundur. Hún fæst líka við að prjóna: Hún filtar og skreytir prjónaflíkurnar sínar með ótrúlega fallegum útsaumi. Þessi tvö áhugamál, við fyrstu sýn ótengd, bæta hvort annað upp í lífi Hörpu. Til þess að vita meira um hana getið þið lesið viðtal við Hörpu, "Þegar prjónaskapur og skriftir tvinnast saman".

Bloggið hennar: harpaj.net

Upplýsingar og tækni

Uppskriftin

Uppskriftin fyrir Henriettu (innifalið prjónaklukka og nærföt) er sú sama og fyrir Theodóru. Aðeins litirnir eru aðrir. Hin fötin og fylgihlutirnir eru aðskildar uppskriftir: Fylgist með því hvaða fatnaður er fáanlegur!

Stærð: hæð 37 cm

Prjónfesta: 10×10 cm  = 19 L x 26 umf í sléttu prjóni á 3,5 mm prjón með Létt-lopa; 26 L x 42 umf í sléttu prjóni á 3 mm prjón með Einband-Loðband.

Garn og efni: Léttlopi frá Ístex: litur 1418, 35 g (líkami); litur 1411, 10 g (hár), litur 0059. Einband-Loðband frá Ístex: litir 9281 og 9171 30 cm/ 12″ (augu og munur); litur 0851, 20 g (klukka); litur 0885: 4 m (klukka); litur 0059; 40 g til 50 g kembu eða pólýester tróð, trétappi 1 cm í þvermál (dúkka).

Prjónar og áhöld: hringprjónar í stærðum 3 mm og 3,5 mm (dúkka); heklunál 3 mm; prjónamerki, hjálparnælur, afgangsgarn, öryggisnælur, saumnál, skæri, málband.

Aðferð: prjónað í hring, tímabundið fit, hringfit, myndprjón.

Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.

Kit: Pakkinn inniheldur garn og efni en ekki prjóna eða önnur áhöld. Sendingarkostnaður er innifalinn í verði. Uppskriftin fylgir með prjónapakkanum sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.

Villur: engan villa fannst.

Um hönnuðinn

Hélène Magnússon finnst gaman að bregða á leik með íslenskar prjónahefðir. Hún er einna þekktust fyrir rannsóknir sínar á íslensku rósaleppaprjóni og gaf í því samhengi út bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem nú er fáanleg á þremur tungumálum. Hélène er frönsk að uppruna en á íslenska fjölskyldu og er sönn íslensk prjónakona. Hún sneri baki við frama sem lögmaður í París til þess að geta eytt meiri tíma í íslenskri náttúru og vann árum saman sem fjallaleiðsögumaður meðfram því að læra textíl- og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjöllmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum prjónatímaritum svo og bókum.