Þegar prjónaskapur og skriftir tvinnast saman

Harpa Jónsdóttir er rithöfundur. Hún fæst líka við að prjóna: Hún filtar og skreytir prjónaflíkurnar sínar með ótrúlega fallegum útsaumi. Þessi tvö áhugamál, við fyrstu sýn ótengd, bæta hvort annað upp í lífi Hörpu. Prjón og skriftir tengjast líka í “Ævintýrum Theodóru” prjónuðu dúkkunnar sem er hönnuð af Héléne Magnússon og sem vaknar til lífsins í smásögum Hörpu.

Til baka í Tölublað 03 – Vor 2011

 

harpa

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér

Er ekki best að koma bara með klassíska fegurðadrottingasvarið: Ég hef áhuga á bókmenntum og listum, heilbrigðum lífsstíl og ferðalögum. Reyndar er ég ekkert voðalega dugleg að ferðast og ég stunda litla líkamsrækt, þó ég gangi oft á fallegu ströndinni við litla þorpið þar sem ég bý. En svona í alvöru þá standa bókmenntir, handverk, ljósmyndun og náttúran hjarta mínu næst, auk fjölskyldunnar sem er alltaf í fyrsta sæti.

Þú er rithöfundur og handverkskona. Hvernig fer það saman?

Það fer prýðilega saman. Skriftirnar fara allar fram í höfðinu svo að segja og það getur verið mikil hvíld í því að vinna með höndunum eftir að hafa setið við skriftir.

annars konar hugsun, meira abstrakt og í litum en í orðum

Það er samt mikil hugsun í textílverkunum mínum, ekki síst útsaumsverkunum, en það er annars konar hugsun, meira abstrakt og í litum en í orðum.

Auk þess skrifa ég mest á morgnana og daginn og svo tekur textíllinn við seinnipartinn og á kvöldin.

Hvaða verk hafa komið út eftir þig?

Ferðin til Samiraka fékk Íslensku barnabókaverðlaunin ári 2002 og Húsið sem er ljóðabók kom út 2008.  Ferðin er fantasía þar sem stúlkan Sigrún uppgötvar uppruna sinn og lendir í spennandi ævintýrum.  Húsið segir fyrst og fremst frá fólkinu í kring um það, bænum og nánasta umhverfi. Svo hef ég samið töluvert af söngtextum, greinum fyrir íslensk og erlend blöð, námsefni fyrir Námsgagnastofnun og fleira.

Er von á nýrri bók fljótlega?

Já – í haust kemur út ný bók hjá forlaginu Sölku. Það er skáldsaga í fullri lengd, falleg saga og svolítið spennandi, en alveg án morða er ég hrædd um.

En hvað með prjónauppskriftirnar þínar?

Ég hef birt nokkrar prjónauppskriftir, aðallega í breska blaðinu Yarn Forward. Flestar eru úr íslenskri ull, en þó ekki allar.

 

Kjólar og þæfðir hlutir með útsaumi eru það sem ég hef mest fengist við fram að þessu og plötulopi er uppáhalds garnið mitt.

Ég á ekki von á að vinna mikið í uppskriftum á næstunni, bókin tekur mikinn tíma núna. En það er þó aldrei að vita hvað gerist ef ég fæ nógu góða hugmynd.

Þú saumar mikið út, hvaðan færð þú hugmyndirnar?

Hugmyndirnar koma úr náttúrunni

Já, ég sauma mikið út í þæfðar húfur og fleira sem ég prjóna fyrst. Hugmyndirnar koma úr náttúrunni allt í kring um mig, fjörunni, hafinu, smádýrum og heiðagróðri til dæmis.

Ég er samt yfirleitt ekki búin að ákveða alveg hvernig hlutirnir eiga að líta út fyrirfram. Þeir þróast smám saman í vinnurferlinu, sem er nokkuð langt. Fyrst prjóna ég, svo lita ég stundum, svo kemur þæfingin, mótun og þurrkun. Svo er komið að útsaumnum sem er mjög tímafrekur.

Hvernig vinnur þú sögurnar um brúðuna Theodóru?

Þegar Hélène kynnti mig fyrir þessari fallegu brúðu og bauð mér að skrifa um hana og vini hennar sá ég strax að brúðan Theodóra var ævintýrakona og þáði því þetta góða boð.

Sögurnar eru innblásnar af þulu Theodóru Thoroddsen Tíu litla ljúflingsmeyjar – eins og brúðurnar sjálfar.

Í fyrstu línunum segir:

Tíu litlar ljúflingsmeyjar laumuðust út úr stíu.
Amma náði i eina þeirra og eftir voru níu.

Í fyrstu sögunni um brúðuna Theodóru og Henríettu vinkonu hennar fara þær ekki beinlínis út úr stíu – en næstum því samt. Og amma lokkar aðra þeirra til sín, þó óviljandi sé – en til að vita meira verður þú að lesa söguna!

Viðtal HM

Fylgstu með Hörpu: harpaj.net