Saga prjóns á Islandi

Íslenska prjónahefðin hefur svo sannarlega upp á meira en lopapeysuna að bjóða. Reyndar er lopapeysan kornung, ekki nema um hálfrar aldar gömul. Hér má lesa fróðleik um íslensku prjónahefðina sem Hélène Magnússon hefur tekið saman.

Til baka í Tölublað 01 – Haust 2010

 

Prjónaskapur tengist sögu lands og þjóðar órofa böndum. Landið byggðist pólitískum flóttamönnum frá Noregi seint á 9. öld, en prjónaskapur nam hér fyrst land á 16. öld. Það voru þó ekki norrænar nágrannaþjóðir sem kynntu íslendinga fyrir prjónamennsku, heldur er talið líklegra að það hafi verið kaupmenn frá Englandi, Þýskalandi eða Hollandi sem fluttu kunnáttuna með sér. Prjónaskapur breiddist hratt út eftir að hann barst fyrst til landsins.

"Þjóðin fór öll að prjóna"

Augljósasta ástæðan fyrir þessari hröðu útbreiðslu er hentugleiki og fjölbreytileiki prjónsins borinn saman við þá vinnu, það pláss og þau efni sem þurfti til að vefa í vefstað, eins og tíðkaðist þá. Önnur ástæða er sú að hráefni til prjónamennsku er drjúgt hér á landi: ullin af íslensku sauðkindinni, sem hefur haldist svo til nánast óbreytt frá landnámstímum og til dagsins í dag.

Þjóðin fór öll að prjóna: karlar, konur og börn. Ætlast var til þess að allir, jafnvel þeir allra yngstu, skiluðu af sér vissu magni af prjónlesi innan tiltekinna tímamarka. Gömul þula gefur innsýn í viðhorfin til vinnu, og þá til prjónaskaps sérstaklega, á fyrri öldum:

"Fyrst þú ert kominn á fjórða ár
ara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna."

Þessi þula kann að vera eilítið ýkt, en þó var ætlast til þess að börn skiluðu af sér vikulegu sokkapari frá unga aldri.

Ýmsir þættir íslensku prjónahefðarinnar skýrast við það að skoða þá í sögulegu samhengi. Um það leyti sem prjónaskapur breiddist hvað hraðast um Ísland, hófust erfiðir tímar fyrir þjóðina sem entust frá lokum 14. aldar og fram á miðja 19. öld. Landið var á þessum tíma hluti af danska konungdæminu, landfræðilega og efnahagslega einangrað og mætti jafnvel segja að umheimurinn hafi snúið baki sínu við því. Lífsbaráttan var hörð og lífskjör þjóðarinnar svo ömurleg að þau skutu mörgum útlendingnum sem ferðaðist til landsins skelk í bringu. Eyjan rís á jarðhitasvæði á mörkum jarðfleka og því eru náttúruhamfarir á borð við jarðskjálfta og eldgos, sem geta þurrkað út búfjárstofna og valdið mikilli hungursneyð, algengari hér en víða annarsstaðar. Það er erfitt að segja til um hvernig Íslendingar fóru að því að lifa hér af á öldum áður, en það þarf ekki að koma á óvart að í upphafi 18. aldar bjuggu hér aðeins 40.000 hræður, eða prjónarar öllu heldur.

"Þetta minnti einna helst á hraðprjónakeppni"

Fólk prjónaði hvenær og hvar sem það kom því við, jafnt í myrkrinu í torfbæjunum sem og á göngu á milli bæja. Heimavið prjónaði fólk einkum í baðstofunni, þar sem heimilisfólk gat hópast saman í kring og prjónað á meðan einhver las húslestur úr sálmabók eða Íslendingasögunum. Hraðinn á handverkinu réðist af hraða lestursins.  Vegna þess hve gluggarnir á húsunum voru litlir og hve lítil birta stafaði frá olíulömpunum þurfti fólk að geta prjónað án þess að sjá á verkið. Flíkur voru nánast einvörðungu prjónaðar í hring með löngum sokkaprjónum; stundum prjónuðu tveir sömu flíkina samtímis og sátu þá hvor á móti öðrum. Þannig gekk verkið hraðar fyrir sig. Sokkaprjón fór að mestu fram eftir sláturtíð; ullin var verkuð á daginn og klára þurfti að prjóna sokkana á kvöldin. Þetta minnti einna helst á hraðprjónakeppni: fólk notaði vökustaura, litlar spýtur, til þess að halda augunum opnum og forðaðist þannig að sofna yfir prjónavinnunni. Karlarnir prjónuðu helst þegar þeir gengu frá einu starfi til annars, enda féll þeim þannig aldrei verk úr hendi. Oftast luku þeir við 4-5 sokkapör á hverri viku.

"handprjónaðar flíkur skipuðu stóran sess í útflutningi Íslendinga"

 

Helsta ástæðan fyrir þessari miklu prjónamennsku, önnur en einfaldlega að klæða sig og sína, var sú að handprjónaðar flíkur skipuðu stóran sess í útflutningi Íslendinga á þessum árum. Sem dæmi má nefna að 72.230 sokkapör og 12.232 vettlingapör voru seld úr landi árið 1624. Efnahagur Íslands byggðist að mestu leyti á fiskveiði, en handprjónaðar flíkur ruddu sér fljótlega til rúms sem útflutingsvara og var skipt fyrir nýlenduvörur, veiðarfæri og aðra vöru sem skorti hér á landi.

Merkilega lítið er vitað um útlit allra þeirra ólíku handprjónuðu flíka sem fluttar voru út á öldum áður, enda hefur lítið sem ekkert af þessu forgengilega efni varðveist. Þetta kemur þó ekki á óvart, enda var hugsanlega að mestu leyti um að ræða grófar, einlitar flíkur ætlaðar evrópsku verkamannastéttinni sem voru mikið notaðar við erfiðar kringumstæður og eyddust fljótt.

Einstakir eiginleikar íslensku ullarinnar lögðu sitt af mörkum til að auka vinsældir hennar erlendis: hún er einstaklega hlý og létt en hrindir þó frá sér vatni.

"fitja upp 800 lykkjur við mitti"

Flíkur sem prjónaðar voru til notkunar á heimilum innanlands voru að öllum líkindum fínni en þær sem fluttar voru út. Prjónles kom fljótlega í staðinn fyrir annað efni og var þannig allur fatnaður almennings handprjónaður, frá toppi til táar. Sem dæmi um prjónaðar flíkur má nefna sokka, buxur, jakka, skotthúfur, nærklæði, skó, axlabönd og sjöl. Púðar og jafnvel tjöld voru prjónuð. Prjónles var nánast eingöngu prjónað í hring á afar smáa prjóna (á 19. öld var þvermál þeirra oft tæplega 1 mm), og svo var það gjarnan þæft til að auka á styrkleika þess og hlýju. Til þess að prjóna peysu á karlmann með svo agnarsmáum prjónum þurfti að fitja upp 800 lykkjur við mitti…

Flíkur voru oftast prjónaðar slétt og mótaðar til þess að passa fullkomlega á líkama eiganda síns, en kantar voru prjónaðir með stroffprjóni eða garðaprjóni. Sökum þess hve fíngerðir prjónarnir voru sem þessar gömlu flíkur voru prjónaðar á hefur reynst erfitt að greina hvaða aðferðir voru notaðar til þess að móta flíkurnar. Mótunin á kvenjökkum var sérlega vönduð, en því miður er ekki vitað nákvæmleg hvernig að henni var staðið. Ekki er heldur mikið vitað um hvort og hvernig tvíbandaprjón eða myndprjón var stundað, en vísbendingar má þó finna í gömlum sjónabókum sem innihalda munsturteikningar sem meðal annars voru notaðar við prjónaskap.

"hæfileikinn til að gera mikið úr afar litlu"

Helstu einkenni íslensku prjónahefðarinnar eru, að mínu mati, mikil tæknileg kunnátta prjónafólks og natni í útfærslu smáatriða, til að mynda í mótun prjónaðra jakka. Prjónafólk á öldum áður sýndi einnig ótrúlegan skilning á eðli íslensku ullarinnar og á því hvernig best mátti nýta nátúrulegu sauðalitina, en þessa kunnáttu höfum við ekki náð að endurvekja í dag. Annað einkenni á íslenskum prjónaskap er hæfileikinn til að gera mikið úr afar litlu. Íslendingar höfðu ekki fjölbreytt hráefni til að vinna úr og því er lítið um íburð og stór, útflúruð meistaraverk í varðveittu íslensku prjónlesi. Aftur á móti er talsvert til af litlum, hentugum en gullfallegum hlutum á borð við vettlinga með fíngerðum, litríkum útsaumi á handarbaki, uppábroti og þumli eða íleppa prjónaða úr garnafgöngum með íslensku rósaleppaprjóni, en sú aðferð er óþekkt utan Íslands.

Ef tekið er tillit til helstu einkenna íslensku prjónahefðarinnar kann að koma á óvart að þekktasti fulltrúi íslenskrar prjónamenningar í dag sé lopapeysan, en hún kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir aðeins rúmum 50 árum. Efniviður lopapeysunnar, óspunnin plötulopi, er einnig tiltölulega nýr af nálinni; hann má rekja aftur til upphafs 20. aldar þegar „latar“ konur prófuðu sig áfram með prjónaskap úr ull sem ekki hafði verið spunnin í garn.

Íslenskt þjóðfélag tók stórtækum breytingum á 20. öld. Landið öðlaðist sjálfstæði frá Dönum og ýmis ný tækni umbylti lífinu á Íslandi meir en í flestum öðrum löndum. Lífskjör bötnuðu margfalt á aðeins fáeinum áratugum. Prjónaskapur hætti að skipta jafn miklu máli og áður sem heimilisiðn og var varla til sem slík undir lok aldarinnar. Um svipað leyti höfðu íslenskir karlmenn að mestu hætt að prjóna; konur prjónuðu enn fallega hluti, en þá aðallega í frístundum sínum. Margar af prjónaaðferðunum sem tíðkuðust á öldum áður höfðu gleymst og horfið og prjónamenningu hafði hrakað umtalsvert frá því sem áður var, þó svo að prjónaskapur væri enn kenndur í grunnskólum.

Nú við upphaf 21. aldarinnar er íslensk prjónamenning aftur að styrkjast. Sennilegt er að hún hafi aldrei horfið með öllu af sjónarsviðinu.

Heimildir :

Elsa E. Guðjónsson, Notes on knitting in Iceland, sjöunda útgáfa, Reykjavík,1990
Fríður Ólafsdóttir, Íslensk karlmannaföt 1740-1850, Reykjavík 1999
Hélène Magnússon, Icelandic Knitting using Rose Patterns, þriðja útgáfa, London 2008
Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir, Reykjavík 1961