Lopi og band

Margrét Linda Gunnlaugsdóttir og Ásdís Birgisdóttir hafa vakið prjónablaðið ,,Lopi og band” til lífsins með nútímalegum uppskriftum sem þær hanna sjálfar. Fyrsta blaðið kom út nýlega eftir árs undirbúning og bráðum kemur út ungbarnablað. Við höfum birt uppskrift Ásdísar, Fléttu, á ensku og frönsku. Lesið viðtalið við Margréti og Ásdísi.

 

 

 

 

Til baka í Tölublað 04 – Vetur 2011

 

 

 

Þið, Margrét Linda Gunnlaugsdóttir og Ásdís Birgisdóttir voruð að endurvekja prjónablaðið Lopa og band. Hvaða blað er það og hvenær kom það út ?

Lopi og band er prjónablað með nýrri íslenskri hönnun eftir okkur sjálfar. Fyrsta tölublaðið leit dagsins ljós í ágúst eftir tæplega eins árs undirbúning.

Hafið þið þekkst lengi? Og hvernig gengur að vinna saman að þessu verkefni ?

Við erum báðar textíl- og prjónahönnuðir og kynntumst þegar Linda var ritstjóri að eldri útgáfu Lopa og bands fyrir um 15 árum síðan. Lopi og band kom upphaflega út árið 1981 og tók miklum breytingum fram til ársins 1997 þegar útgáfu þess var hætt. Síðustu árin var Linda ritstjóri og ég hannaði fyrir blaðið. Á þeim tíma myndaðist með okkur mikill vinskapur enda eigum við mörg sameiginleg áhugamál; prjón og hönnun, hestamennsku og útivist.

Við komum báðar að borðinu með víðtæka reynslu

Með langa vináttu að baki og reynslu að ýmsum sameiginlegum verkefnum þá var okkur það leikur einn að takast á við útgáfu Lopa og bands. Við komum báðar að borðinu með víðtæka reynslu sem nýtist við útgáfu prjónablaðsins, Linda er þjóðfræðingur og textílhönnuður og sem fyrr segir, ritstjóri eldra blaðsins. Ásdís hefur unnið sem framkvæmdastjóri hjá Textílsetri Íslands og Heimilisiðnaðarfélaginu og einnig hannað prjónaflíkur til fjölda ára. Sameiginlega erum við með þekkingu á ritstjórn, hönnun, rekstri og markaðssetningu og bætum hvor aðra upp í þessu verkefni sem öðrum.

Hvernig og afhverju kviknaði hugmyndin að endurvekja blaðið ?

Prjónaáhuginn hefur vaxið gríðarlega, öllum til mikillar ánægju og gleði. Margir eru í handprjónuðum peysum við hin ýmsu tækifæri.

Prjónaáhuginn hefur vaxið gríðarlega

En báðar höfum við velt fyrir okkur síðustu ár afhverju virðist sem að handprjónaðar flíkur úr íslensku bandi hafi orðið fremur einsleitar. Litla fjölbreyttni sé að sjá í prjónahönnun og okkur fannst sem að það væri þörf á að skoða fleiri möguleika og útfærslur á flíkum fyrir innlendan markað.

Hvað er markmiðið með því að gefa út nýtt prjónablað ?

Markmiðið okkar var því að gefa út prjónablað með hönnun eftir okkur sjálfar og okkar hugmyndum að nýjum og fjölbreyttum uppskriftum í handprjóni. Við stefnum að því að hafa um helming uppskrifta í hverju blaði úr íslensku bandi og helming úr innfluttu bandi. Við vonumst til þess að geta höfðað til fjölbreytts hóps prjónafólks með framtakinu enda er prjónaáhuginn svo geysilega útbreiddur.

Hvernig er nýja Lopi og band í samanburði við gamla blaðið ?

Nýja blaðið þykir okkur á margan hátt ekki svo ólíkt því gamla, því undir ritstjórn Lindu hafði Lopi og band náð töluverðri útbreiðslu og var þekkt fyrir vandaða, fjölbreytta og frumlega hönnun. Nýja blaðið verður gefið út um þrisvar á ári, og verður hvert blað nokkuð veglegt með um 30-40 uppskriftum.

Forsíðumyndin virðist prjónuð

Við fengum til liðs við okkur unga grafíska hönnuði til að útlitshanna blaðið og þykir t.d. forsíða þess vera afar ólík því sem hefur sést áður. Forsíðumyndin virðist prjónuð og hafa viðbrögðin verið á ýmsa vegu við þessu uppátæki okkar. Þá tókum við ákvörðun um að hver uppskrift hefði heila opnu svo að framsetningin er skýr og auðlesanleg.

Hvernig gengur ykkur að gefa út prjónablað á þeim tíma sem kreppir að í þjóðfélaginu? Hvernig hafa viðbrögðin verið?

Blaðið hefur fengið góðar viðtökur enda prjónaáhuginn mikill og útbreiddur. Hönnunin þykir spennandi og frumleg. Við leggjum mikið upp úr því að vinna með lopa í fyrsta blaðinu, sýnum hvernig hægt er að blanda saman litum og áferðum, en erum með lítið af munsturbekkjum. Sniðin á flíkunum eru fjölbreytt, bæði einföld og flóknari. Við tókum mið af tískustraumum í útfærslum á sniðum og það virðist hafa vakið töluverða athygli.

Við bjóðum upp á uppskriftir fyrir jafnt óreynda og reyndari.

Hvað kemur blaðið oft út og hvar er hægt að nálgast það ? Hvað kostar það ?

Blaðið mun koma út þrisvar sinnum á ári og er dreift í hannyrða og bókaverslanir. Það er einnig selt í áskrift og sent erlendis til þeirra sem þess óska. Blaðið verður selt í áskrift þetta ár á 1.600 kr., en útsöluverð er 1.800-2.000 kr. Það má nálgast áskrift í s.895-2745 og með tölvupósti í netfang: lopiogband@simnet.is.


Myndir: Lopi og band

Viðtal Hélène Magnússon