Prjónað með örlaganörnunum

Sænsk-kanadíski prjónahönnuðurinn Anna Dalvi hefur sérstaklega gaman  af samprjóni (e. knitalongs, KALs). Samprjón gengur út á að hópur fólks prjónar sömu uppskrift á sama tíma og deilir reynslu sinni, ráðum og framvindu og hefur samskipti við hönnuðinn gegnum Netið. Hélène Magnússon hefur fylgst náið með nýjasta samprjóni Önnu. Samprjónið er kennt við Nornir og er helgað sjölunum Urður, Verðandi og Skuld sem byggð eru á samnefndum nornum úr Norrænni goðafræði.

Til baka í Tölublað 01 – Haust 2010

Segðu okkur frá bakgrunni þínum. Hvenær lærðir þú að prjóna?

Ég ólst upp á vesturströnd Svíþjóðar, en hef búið í Norður-Ameríku síðastliðin 20 ár. Ég man ekki hvenær ég lærði að prjóna, en bæði mamma mín og amma prjónuðu mikið og ég geri ráð fyrir að önnur þeirra (eða sennilega þær báðar) hafi kennt mér að prjóna.

Þegar ég var unglingur þótti mér fátt skemmtilegra en tvíbandaprjón; sérstaklega þótti mér gaman að prjóna norsk og önnur norræn munstur. Ég prjónaði ekki mikið á milli tvítugs og þrítugs, en byrjaði aftur þegar dóttir mín bað mig um að kenna sér að prjóna. Hún prjónaði afar flottan regnbogatrefil og ég hef ekki hætt að prjóna síðan.

Hversvegna fórstu að semja prjónauppskriftir og hvaðan færðu innblástur?

Mér hefur alltaf þótt gaman og gefandi að prófa mig áfram með ný munstur og nýjar aðferðir í prjónaskapnum mínum.

Ég fæ helst innblástur frá náttúrunni í öllum sínum birtingarmyndum; þar sem ég ólst upp við ströndina er ég sérstaklega heilluð af vatni. Ég hef einnig lengi verið hrifin af þjóðsögum, ævintýrum og goðsögnum. Þegar ég var yngri þótti mér fátt betra en að heimsækja bókasafnið og sökkva mér ofan í þjóðsögur og ævintýri. Sérstaklega þótti mér spennandi að uppgötva að sögur sem upprunnar voru í ólíkum menningarheimum voru engu að síður oft sláandi líkar. Áhugi minn á goðsögnum kom í rökréttu framhaldi af áhuga mínum á ævintýrum, enda er frábærar sögur að finna innan beggja bókmenntagreina. Þegar ég var svo komin í háskóla uppgötvaði ég Íslendingasögurnar, sem eru ekki síður heillandi og veita mér mikinn innblástur.

Hversvegna gefur þú út svona margar uppskriftir sem samprjón?

Eftir að hafa tekið þátt í samprjóninu fyrir sjalið Mystery Stole 3 (Swan Lake) eftir Pink Lemon Twist langaði mig til þess að standa sjálf fyrir samprjóni. Ég átti von á að um það bil 20 manns myndu skrá sig í samprjónið fyrir Mystic Waters uppskriftina mína og var því vægast sagt hissa þegar rúmlega þúsund manns skráðu sig til þáttöku!

Ég nýt þess að eiga samskipti við allt fólkið sem tekur þátt í samprjónunum mínum og ég ELSKA að sjá myndir af sjölunum þegar þau eru í vinnslu og þegar þau eru tilbúin. Þetta er svo skemmtileg leið til þess að kynnast prjónafólki frá öllum heimshornum að ég get hreinlega ekki ímyndað mér að ég gefi samprjón nokkurntímann upp á bátinn.

Hvernig getum við tekið þátt í samprjónunum þínum?

Þið getið skráð ykkur í samprjón á heimasíðunni minni: http://www.knitandknag.com/kals/

Hvert samprjón nær yfir eina útprjónsárstíð. Sjölin þrjú í Norna-samprjóninu komu út um sumar, eitt sjal á mánuði í júní, júlí og ágúst. Samprjónið nú í haust sækir þrjá staði á heimsminjaskrá heim og koma uppskriftirnar út í september, október og nóvember.

Þegar fólk skráir sig til þáttöku í samprjóni fær það sendan tölvupóst þar sem því er boðið að ganga í yahoo-hóp. Í hverjum mánuði fær það svo aðgang að uppskrift að útprjónuðu sjali sem byggir á því þema sem er í gangi hverju sinni.

Uppskriftirnar eru aðgengilegar innan yahoo-hópsins sem .pdf-skjal til niðurhals.

Uppskriftirnar koma út á ensku, þýsku og frönsku og einnig er hægt að fá aðstoð á þessum tungumálum, auk sænsku.

Uppskriftirnar þínar koma út á þremur tungumálum, sem er frekar óvenjulegt. Hverjir þykja þér vera helstu kostir og gallar við að gefa út á fleiri en einu tungumáli?

Í fyrstu gaf ég uppskriftirnar mínar aðeins út á ensku, en fljótlega varð mér ljóst að það var stór hópur prjónafólks í Þýskalandi sem myndi njóta góðs af því ef ég byði upp á uppskriftir á þýsku líka.  Bea Weindl bauðst til þess að þýða uppskriftirnar fyrir mig og það hefur gengið mjög vel. Það hefur náttúrulega sitt að segja að ég skil þýsku, því það kemur fyrir að fólk sendi inn fyrirspurnir á þýsku í samprjónshópana og þá get ég svarað án þess að þurfa að fara í gegnum þýðanda fyrst. Seinna hjálpaði Agnes Argan mér við að þýða uppskriftirnar mínar á frönsku og það hefur laðað að hóp af frönsku prjónafólki.

Ég ætti dálítið erfitt með að láta þýða uppskriftirnar mínar á tungumál sem ég skil ekki sjálf, því þá myndu mér hugsanlega berast fyrirspurnir á því tungumáli og ég gæti ekki svarað þeim. En þýska og franska eru í góðu lagi mín vegna. Einnig hef ég stundum svarað fyrirspurnum á sænsku, norsku og dönsku og er verulega ánægð með hve fjölþjóðlegur hópurinn er að verða í samprjónunum mínum

Segðu okkur meira frá nornunum í  Norna samprjóninu.

Urður, Verðandi og Skuld eru þrjár systur sem búa í útjaðri Ásgarðs, undir rót trésins Yggdrasils. Þær búa í myrkum helli og fyrir framan hann er brunnur Urðar. Systurnar sækja sér á hverjum degi vatn úr brunninum og blanda það töfraleir og grófum sandinum sem er umhverfis brunninn. Þessari blöndu smyrja þær á rótina og koma þannig í veg fyrir fúa og viðhalda lífskrafti trésins. Yggdrasill er lífsins tré og greinar þess breiða úr sér yfir í alla heimana níu sem tilteknir eru í norrænni goðafræði.


Eftir að þær hafa sinnt trénu á degi hverjum taka systurnar til við að spinna. En þær spinna engan venjulegan þráð, heldur þráð sem ákvarðar líf og dauða alls og örlög alheimsins. Nornirnar mæla tímann og stýra fortíð, nútíð og framtíð.

Nöfn nornanna eru dregin af hlutverki þeirra. Urður stendur fyrir fortíðina, Verðandi stendur fyrir nútíðina og Skuld stendur fyrir framtíðina. Saman standa þær fyrir örlögin.

Heimili nornanna við rætur Yggdrasils er helgur staður. Þrjár ástæður eru fyrir því: þar er hlúð að trénu og þannig komið í veg fyrir að fúi dreifi úr sér um alheiminn; þar spinna Urður, Verðandi og Skuld sína örlagaþræði og þangað fara æsirnir á hverjum degi til þess að leggja á ráðin og reyna að halda aftur af Ragnarrökum.

Hvernig urðu þessar goðsagnir að útprjónsmunstrum?

Ég hannaði sjal fyrir hverja norn.

Sjal Urðar er kringlótt og táknar þannig brunninn sem nornirnar sækja vatn fyrir Yggdrasil í. Brunnurinn er jafnframt viskubrunnur, dimmur og djúpur. Því er miðja sjalsins dimm og djúp og umhverfis hana bylgjast öldur.

Á sjali Verðandi má sjá laufkrónu Yggdrasils breiða úr sér. Verðandi er norn nútíðar og huga verður að Yggdrasil í núinu til þess að fúi dreifi ekki úr sér um allan heiminn.

Auk þess að hugsa um Yggdrasil vinna nornirnar hið mikilvæga starf að spinna örlagaþræðina. Þar sem að líf fólks tengist saman á ýmsa vegu má sjá samtengda örlagaþræði okkar í sjali Skuldar.

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

Um miðjan september gef ég út fyrsta sjalið af þremur í nýju samprjóni þar sem að þemað tengist Víkingum og fornnorrænni menningu. Sjölin byggja á þremur stöðum sem eru á heimsminjaskrá; fyrstan ber að nefna Jelling í Danmörku sem þar sem finna má rúnasteina sem reistir voru af Haraldi Blátönn Gormssyni og föður hans Gormi Gamla til þess að minnast látinna ættingja og þess að Danir tóku upp kristni í kring um árið 1000. Annað sjalið sækir innblástur til L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi þar sem að Leifur Eiríksson nam land eins og frægt er orðið í Grænlendingasögu. Síðasta sjalið byggir á útskornum steinum sem finna má í Tanumshede í Svíþjóð, en þeir eru taldir vera frá bronsöld og sýna langskip sem notuð voru í könnunarleiðangra.

Hvað okkur fannst um Norna-samprjónið:

Hélène hefur fylgst vel með hinu stórskemmtilega Norna-samprjóni og eftirfarandi er útlistun á því sem okkur þóttu vera helstu kostirnir við verkefnið og hvað okkur fannst að betur mætti fara.

Megum við byrja á því að segja að sjölin eru æðisleg? Já auðvitað, annað er ekki hægt! Sjölin þrjú voru jafn frábær og þau voru ólík. Við kunnum vel að meta einfaldleika Skuldar, óvenjulega lögun Verðandi og hin kringlótta Urður er hreinlega mögnuð.

Anna notaði afar girnilegt garn í hvert sjalana og hentaði garnið uppskriftinni vel í hverju tilfelli. Sérlega hreif okkur að Anna reynir augljóslega að hampa sjálfstætt starfandi garnliturum og að hún var ákaflega hjálpleg við þá þáttakendur sem þurftu á aðstoð að halda við að velja sér garn.

Leiðbeiningarnar eru vel skrifaðar, auðskiljanlegar og munsturteikingar og töflur eru mjög skýrar.

Anna var fljót að bregðast við spurningum og ábendingum á hverju tungumálanna þriggja sem er. Þar sem að sjölin komu út á sumarleyfistíma kom það stundum fyrir að Anna hafði ekki aðgang að netinu, en hún lét þáttakendur alltaf vita af því fyrirfram og náði engu að síður að uppfæra samprjónið með reglulegu millibili. Hún sendi meira að segja eina uppskriftina frá sér fyrr en til stóð og sendi jafnframt frá sér leiðréttingar um leið og mistök komu í ljós í einni munsturteikningunni.

Það sem mætti bæta:

Eitt af því sem heillar okkur helst við uppskriftirnar hennar Önnu eru sögurnar á bak við hvert sjal. Við hefðum viljað hafa sögurnar með í .pdf-skjölunum sem innihalda uppskriftirnar, til þess að hafa allt á einum stað. Eins og málin standa í dag er aðeins hægt að lesa sögurnar á bak við uppskriftirnar á netinu.

Jafnframt hefðum við gjarnan viljað lesa meira um hverja sögu (þess vegna spurðum við um þær í viðtalinu) því við viljum meina að sagan geri uppskriftina einstaka.

Anna sendir uppskriftirnar frá sér á þremur tungumálum, en upplýsingar um uppskriftirnar eru þó aðeins á einu tungumáli á vefsíðu hennar. Það er ekki fyrr en maður hefur gengið í gegn um allt skráningaferlið í yahoo-hópinn að maður fær aðgang að upplýsingum á fleiri tungumálum.

Nokkrar athugasemdir að lokum

Anna á sér þegar stóran hóp aðdáenda sem kunna að meta uppskriftirnar hennar. Hún virðist einnig snögg að semja uppskriftir út frá atburðum líðandi stundar, eins og hún gerði fyrr á árinu þegar Eyjafjallajökull gaus.